Aðalfundur SAM í dag

Aðalfundur SAM er í dag, 1. mars og af því tilefni opna samtökin einnig nýjan og endurbætta vefsíðu. Í skýrslu stjórnarformanns SAM, Jóhannesar Ævars Jónssonar, kemur m.a. fram: „Mjólkurframleiðslan jókst á árinu 2012 og var 125,1 milljónir lítra hjá aðildarfélögum SAM en árið 2011 var framleiðslan 124,5 milljónir lítra.

Meðalinnvigtun mjólkurinnleggjenda 2012 var 187.265 lítrar og jókst um 4.036 lítra á árinu. Mjólkurframleiðendur í árslok voru 668 og hafði fækkað um þrettán á árinu.

Greiðslumark verðlagsársins 2012 var 114,5 milljónir lítra. Hjá aðildarfélögum SAM var tekið á móti 125.092.988 lítrum og mjólk umfram greiðslumark var 10.659.990 lítrar. Greiðslumark verðlagsársins 2013 hefur verið ákveðið samkvæmt tillögu SAM 116 milljónir lítra. Allt frá verðlagsárinu 2008 – 2009 hefur greiðslumark dregist saman milli ára og er því ánægjulegt að þróun í sölu mjólkurafurða innanlands gefur nú tilefni til að auka greiðslumarkið í fyrsta sinn í nokkurn tíma.

Sala mjólkurvara árið 2012 verður að teljast góð og varð aukning í sölu bæði á próteingrunni og fitugrunni. Umreiknuð sala á próteingrunni nam um 115,5 milljónum lítra sem var aukning um 1,8 milljónir lítra frá síðasta ári. Umreiknuð sala á fitugrunni var um 114,1 milljónir lítra, sem var aukning um 2,6 milljónir lítra frá fyrra ári. Sala á fitugrunni árið 2011 var því 1,3 milljónum lítra undir sölu á próteingrunni og minnkaði munurinn um 0,9 milljónir lítra á árinu. Vænta má þess að sala á fitu og próteini verði nokkurn veginn í jafnvægi á árinu 2013 verði þróunin með sama hætti og verið hefur.

Innflutningur mjólkurafurða jókst um 26,9 tonn á milli ára. Aukningin var mest í innflutningi á ostum en einnig nokkur í innflutningi á jógúrt. Innflutningurinn á árinu 2012 samsvarar um 220.000 lítrum af mjólk á próteingrunni og um 160.000 lítrum á fitugrunni. Útflutningur mjólkurafurða jókst talsvert á árinu 2012 eða um 22,9 %. Mest var aukningin í útflutningi á ostum og skyri. Útflutningur á skyri jókst um 34,8% á árinu og var 522 tonn. Þá jókst útflutningur á osti úr 133 tonnum í 348 tonn á árinu“

 

Nánari upplýsingar um starfsemi SAM á árinu 2012 má nálgast í ársskýrslunni með því að smella hér /SS.