SAM tekur PCR greiningar í notkun

Í stað núverandi ræktunar á júgurbólgubakteríum hefur verið tekin í notkun ný tækni við júgurbólgugreiningu, svokölluð PCR júgurbólgugreining, sem er mun fljótvirkari og næmari en ræktunarðaferðin. Frá og með áramótum fara PCR-júgurbólgugreiningarnar fram á rannsóknarstofu SAM í Reykjavík. Á sama tíma verður hætt að rækta júgurbólgusýni á rannsóknarstofu SAM á Selfossi.

Stutt um PCR júgurbólgugreiningar

PCR stendur fyrir Polymerase Chain Reaction. Greiningaraðferðin hefur verið notuð um nokkurra ára skeið í nágrannalöndum okkar með góðum árangri. Greiningaraðferðin tegundagreinir og magntelur 15 algengustu júgurbólguörverurnar. Að auki greinir hún betalactamasegenið sem orsakar penicillin-ónæmi hjá Stafylokokkum. Eftirfarandi örverur er unnt að greina með PCR-júgurbólgugreiningu:

Streptococcus agalactiae

Streptococcus dysgalactiae

Staphylococcus aureus

Staphylococcus spp (innifalið allir aðal coagulase-neikvæðir staphylokokkar)

Mycoplasma bovis

Mycoplasma spp

Streptococcus uberis

Corynebacterium bovis

Arcanobacterium pyogenes og Peptonphilus (Peptostreptococcus) indolicus

Enterococcus spp (innifalið E. Faecalis og E. Faecium)

Klebsiella spp (inkl. K. Oxytoca og K. Pneumonia)

Serratia marcescens

Escherichia coli

Prototheca spp.

Ger (innifalið Candida spp, Pichia spp. osfrv.)

PCR greiningartæknin afritar DNA í mjólkinni og fyrir hverja afritun leggst á fluorlýsandi efni. Lesið er af þegar ljósmerkin hafa náð ákveðnum fjölda. Því færri afritanir sem þarf fyrir ákveðið magn, því meira er af viðkomandi DNA í prufunni. Greiningartæknin er mjög næm og greinir DNA bæði úr lifandi og dauðum bakteríum. Þar sem greiningin byggir ekki á ræktun eins og notuð hefur verið fram að þessu er hægt að senda sýnin rotvarin og geta því skýrsluhaldssýnin einnig farið í PCR greiningu. Unnt er að greina tanksýni, kýrsýni og spenasýni með og án rotvarnarinnar bronopol en við mælum með að sýni séu með bronopol rotvörn ef það er nokkur kostur.

Niðurstöður og niðurstöðuskil

Niðurstöðurnar eru gefnar upp með –, +/-, +, ++, +++. Skýringar eru eftirfarandi :

+/- Ógreinilegt (mælt er með nýju sýni)

+ Greint í litlu magni

++ Greint í nokkru magni

+++ Greint í miklu magni

Niðurstöður verða sendar um leið og þær liggja fyrir, en stefnt er að því að svo verði eigi síðar en sólahring eftir að sýni berast rannsóknarstofu og jafnvel fyrr eftir því hvenær dags sýni berast.

Ekkert fundið

 

Kostnaður/verð

PCR greiningaraðferðin er nokkuð dýrari en ræktunaraðferðin sem notuð hefur verið á rannsóknarstofu SAM á Selfossi. Verðskrá vegna sýnis verður óbreytt í janúar, en frá og með 1. febrúar 2013 verður verð fyrir hvert PCR-sýni 1.800 kr.

B-gerlar

Tanksýni hafa verið ræktuð tvisvar á ári til að athuga hvort B-streptokokkar (Streptovcoccus agalactiae) séu til staðar í viðkomandi hjörð. Greining á B-streptokokkum í tanksýnum verður framvegis gerð með PCR-júgurbólgugreiningu en með því fylgir greining á öllum hinum örverunum sem greinanlegar eru með þessari greiningarðaferð. Þetta getur verið mjög gagnlegt til að sjá hvaða örveruflóra er til staðar í hjörðinni.

Fyrir meðhöndlun í geldstöðu

Ef meðhöndla á kýr í geldstöðu er gagnlegt að senda sýni í PCR-júgurbólgugreiningu áður og þá er yfirleitt nægjanlegt að senda eitt sýni úr hverri kú þ.e. blandsýni úr öllum spenunum.

Kassar með sýnaglösum og nánari upplýsingar

Hægt er að óska eftir að fá senda kassa með sýnaglösum sem innihalda bronopol rotvörn í síma 569 2370 eða netfangið rm@sam.is. Einnig mun vera hægt að nálgast slíka kassa í mjólkurstöðvunum.

 

Ef nánari upplýsinga er óskað þá hikið ekki við að hafa sambandi við Jón K. Baldursson (s: 569 2220, netfang: jonkb@ms.is ).