Orðskýringar

Greiðslumark mjólkur:
Greiðslumark er sá hluti heildargreiðslumarks sem ákveðinn er fyrir hvern mjólkurframleiðanda og veitir rétt til beinnar greiðslu úr ríkissjóði fyrir framleiðsluna. Greiðslumark er bundið við lögbýli og breytist í réttu hlutfalli við heildargreiðslumark. Heildargreiðslumark mjólkur er ákveðið af landbúnaðarráðherra fyrir hvert verðlagsár og miðast við sölu á innanlandsmarkaði.

Mjólkurkvóti:
Mjólkurkvóti landsins er heildargreiðslumark.

Verðlagsár:
Verðlagsár hefst 1. janúar og lýkur 31. desember.

Innvigtuð mjólk:
Innvigtun á sér stað þegar mjólk er mæld inn í mjólkurbú. Öll mjólk sem mjólkurbú móttekur beint frá framleiðendum á tilteknu tímabili er heildarinnvigtun mjólkurbúsins á tímabilinu.

Meðalmjólk:
Í meðalmjólk er meðalefnasamsetning mjólkur í landinu hverju sinni. Þannig er innihald meðalmjólkur af fitu og próteini meðaltal fitu og próteins mjólkur undanfarin þrjú verðlagsár. Meðalmjólk er oft kölluð grundvallarmjólk.

Beingreiðslur:
Beingreiðsla er greiðsla úr ríkissjóði til framleiðanda, sem á greiðslumark.

Afurðastöðvarverð:
Mjólkursamlag greiðir framleiðanda afurðastöðvaverð fyrir mjólkina.

Ráðstöfun:
Ef lítri af innveginni mjólk er notaður til þess að framleiða tiltekna neysluvöru er lítranum ráðstafað í þá neysluvöru. Heildarráðstöfun mjólkur í landinu á ákveðnu tímabili er öll sú mjólk sem notuð er í framleiðslu þeirra mjólkurvara sem framleiddar eru á tímabilinu.

Umreikningur:
Umreikningur m.v. fitu segir til um hversu marga lítra af meðalmjólk þarf til þess að fá fitumagnið í tiltekna neysluvöru. Á sama hátt má reikna m.v. prótein. Þannig þarf fitu úr sem nemur 21,4 lítrum af meðalmjólk til að framleiða 1 kg af smjöri en prótein úr sem nemur aðeins 1,5 lítrum af meðalmjólk.

Vistvænn landbúnaður:
Hliðstæður við vistvænan landbúnað erlendis eru „half-way-houses“, „conservation grade“, „alternative“ og „integrated agriculture“ í Bretlandi og víðar, og „low input sustainable agriculture“ eða „LISA“ og „integrated pest management“ eða „IPM“ í Bandaríkjunum og víðar. Á hinum Norðurlöndunum er vistvænum landbúnaði lýst sem „lys grøn“ samanborið við „grøn“ fyrir lífrænan, og notuð eru heitin „miljøvenlig“, „alternativ“ og „integreret landbrug“.

Lífrænn landbúnaður:
Lífræn landbúnaðarframleiðsla byggist á lífrænni ræktun jarðvegs, notkun lífræns áburðar, safnhaugagerð, sáðskiptum og lífrænum vörnum í stað hefðbundinna lyfja og eiturefna. Gerðar eru miklar kröfur til umhverfisverndar, velferðar búfjár og hreinleika afurða. Stefnt er að sjálfbærri þróun. Óheimilt er að nota erfðabreyttar lífverur. Í enskumælandi löndum er lífrænn landbúnaður kallaður „organic agriculture“ en á hinum Norðurlöndunum „økologisk landbrug“.