1. grein
Félagið heitir Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði sf, skammstafað SAM. Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.
2. grein
Tilgangur félagsins er:
a) að gæta hagsmuna aðildarfélaga inn á við sem út á við í hvívetna
b) að koma fram fyrir hönd aðildarfélaga við framkvæmd laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu búvöru eða annarra laga og stjórnvaldsfyrirmæla eða samninga sem varða mjólkuriðnaðinn og taka í starfsemi sinni fullt tillit til hagsmuna mjólkurframleiðenda,
c) að annast sameiginleg verkefni á vegum aðildarfélaganna er stuðla að aðstöðujöfnun meðal mjólkurframleiðenda á landsvísu,
d) að hafa í rekstri og efnahag sínum þá sameiginlegu starfsemi, í þágu greinarinnar, sem stjórn samtakanna tekur sjálfstæða ákvörðun um.
3. grein
Félagið er sameignarfélag með ótakmarkaðri ábyrgð aðildarfélaga. Eignarhlutur einstakra eigenda skal ákvarðast í lok hvers árs og miðast við fjölda innveginna lítra mjólkur þriggja næstliðinna ára. Rekstrarframlag eigenda skal vera mánaðarlegt og ákvarðast sem föst greiðsla af hverjum lítra innveginnar mjólkur. Aðalfundur ákvarðar gjaldið að tillögu stjórnar. Markmið félagsins er ekki fjárhagslegur ávinningur né eignasöfnun, nema að því leyti sem nauðsynlegt er til reksturs þess.
4. grein
Allir sem starfrækja afurðastöð(var) sbr. skilgreiningu 2. gr. laga nr. 99/1993, skulu eiga rétt á að gerast aðilar að félaginu. Aðili sem óskar eftir inngöngu í félagið skal senda stjórn þess skriflegt erindi þar að lútandi. Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg með eins árs fyrirvara sem miðast skal við áramót.
5. grein
Félagsaðilum er skylt að halda samþykktir þessar og fylgja þeim ákvörðunum sem á þeim eru byggðar. Þeir skulu m.a. veita félaginu þær upplýsingar, sem þeir kunna að verða krafðir um og stjórnin telur nauðsynlegar til þess að ná fram markmiðum félagsins.
6. grein
Aðilar að Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði, sbr. ákvæði 4. gr. samþykkta þessara, veita félaginu fullt umboð til að gera bindandi samninga við stjórnvöld um málefni er snúa að heildarhagsmunum mjólkuriðnaðarins. Sé um að ræða veigamiklar ákvarðanir, eða ætla má að mjög skiptar skoðanir séu um mál innan félagsins, skal stjórn gæta þess að kynna félagsaðilum það með nægum fyrirvara til að neyta megi ákvæða 9. gr. um aukafundi.
7. grein
Félagið skal sjá um sameiginlegt uppgjör þeirrar mjólkur sem framleidd er umfram greiðslumark á hverjum tíma. Við uppgjör umframmjólkur skal ábyrgðinni skipt á aðildarfélög í réttu hlutfalli við þá umframmjólk sem vigtuð er inn í afurðastöð(var) viðkomandi félagsaðila.
8. grein
Til að ná settum markmiðum, sbr. 2. gr., er félaginu veitt heimild til ákvarðana í þeim málefnum sem verða í verkahring þess og rúmast innan heimilda laga nr. 99/1993.
Í verkahring þess eru m.a. eftirtalin atriði:
a) efla samstarf og samvinnu milli aðila félagsins,
b) annast framkvæmd og reikningshald verðtilfærslu SAM á meðan heimildarákvæði laga nr. 99/1993 verður til staðar og það nýtt,
c) gera áætlun um kostnað við rekstur félagsins og jafnframt að taka ákvörðun um og innheimta rekstrarframlög skv. 3. gr. samþykkta þessara,
d) tilnefna fulltrúa í Verðlagsnefnd búvöru sbr. 7. gr. laga nr. 99/1993 sem og aðrar nefndir eða til sameiginlegra viðfangsefna aðildarfélaga gagnvart opinberum aðilum, eftir því sem óskað er eftir og þörf er á hverju sinni,
e) að vera í fyrirsvari fyrir sameiginlegum hagsmunum aðildarfélaga út á við,
f) að safna tölfræðilegum upplýsingum um greinina,
g) að annast þau verkefni sem opinberir aðilar fela samtökunum skv. þeim samningum sem gerðir eru þar að lútandi,
h) að annast hverskyns verkefni sem aðildarfélögin fela samtökunum.
i) að annast alþjóðleg samskipti fyrir greinina og vera aðili að alþjóðasamtökum mjólkuriðnaðarins.
9. grein
Innan þeirra takmarka sem samþykktir þessar setja hefur aðalfundur æðsta vald í öllum málefnum félagsins. Afl atkvæða ræður úrslitum á félagsfundum nema á annan veg sé mælt í samþykktum þessum eða landslögum. Varðandi atkvæðisrétt einstakra aðildarfélaga gildir sama regla og fram kemur í 10. gr. Aukafundir skulu boðaðir eftir ákvörðun stjórnar og ef að aðildarfélög sem fara með a.m.k. 5% hluta atkvæðamagns í félaginu óska þess. Á aukafundum verður aðeins gerð ályktun um þau mál sem nefnd hafa verið í fundarboði.
10. grein
Aðalfund skal halda árlega, eigi síðar en í maímánuði og skal til hans boðað með minnst 7 daga fyrirvara með ábyrgðarbréfi eða á annan sannanlegan hátt. Hvert aðildarfélag skal hafa eitt atkvæði á aðalfundi félagsins fyrir hverja byrjaða milljón lítra innveginnar mjólkur, hjá hverri afurðastöð viðkomandi aðildarfélags, miðað við næsta ár á undan aðalfundi. Kosningaréttur er bundinn því skilyrði að staðfestar skýrslur um innvigtun hafi borist stjórn félagsins fyrir janúar lok ár hvert. Hvert aðildarfélag hefur rétt á að senda fleiri en einn fulltrúa á aðalfundinn en aðeins einn fulltrúi fer með atkvæði félagsaðila. Við val fulltrúa aðildarfélaga á aðalfund félagsins, er mælst til þess að fulltrúar komi frá sem flestum mjólkurframleiðslusvæðum og að a.m.k. einn fulltrúi komi fyrir hverjar 4 milljónir lítra innveginnar mjólkur.
Aðalfundur telst lögmætur ef fulltrúar fyrir að minnsta kosti helming gildra atkvæða eru mættir, ella skal boðað til nýs fundar á sama hátt og skal sá fundur teljast lögmætur hver sem mæting verður.
11. grein
Á dagskrá aðalfundar skal vera;
a. Skýrsla stjórnar um störf á árinu.
b. Reikningar félagsins skýrðir og bornir upp til samþykktar.
c. Kosning stjórnar skv. 1. mgr 13. gr.
d. Kosning endurskoðanda og eins til vara.
e. Önnur mál.
12. grein
Í sérstaka gjörðarbók skal rita allar fundarsamþykktir og stuttar skýrslur um annað, er gerist á félagsfundum. Fundargerðirnar skulu lesnar upp í fundarlok og bornar undir atkvæði fundarmanna og undirskrifaðar síðan af fundarstjóra og fundarritara. Þessi fundarskýrsla skal vera full sönnun þess er fram hefur farið á fundinum.
13. grein
Stjórn félagsins er skipuð fimm mönnum og jafnmörgum varamönnum og eru fjórir þeirra kosnir á aðalfundi til eins árs í senn og varamaður fyrir hvern þeirra. Bændasamtök Íslands(BÍ) skulu tilnefna einn stjórnarmann og varamann hans til jafnlangs tíma. Tilnefning BÍ skal hafa borist stjórn félagsins fyrir 1. febrúar ár hvert. Hafi tilnefning BÍ ekki borist fyrir þennan tíma skal á aðalfundi kjósa fimm stjórnarmenn og jafnmarga til vara. Viðhöfð skal hlutfallskosning sé þess óskað. Af aðalmönnum í stjórn félagsins skulu a.m.k. tveir vera mjólkurframleiðendur og skal sama eiga við um varamenn þeirra.
Stjórn félagsins skal kjósa sér formann og skipta með sér störfum að öðru leyti. Stjórnin fer með málefni félagsins milli aðalfunda. Formaður kveður til stjórnarfunda og skal það gert ef einhver stjórnarmanna óskar þess. Stjórnarfundur er ályktunarbær ef meirihluti stjórnar er mættur. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum á stjórnarfundum. Undirskrift fimm stjórnarmanna þarf til að skuldbinda félagið.
14. grein
Stjórninni er heimilt að ráða framkvæmdastjóra, sem hefur umsjón með daglegum framkvæmdum þess, rekstri og fjármálum skv. nánari ákvæðum í starfssamningi er stjórnin gerir við hann. Stjórninni er heimilt að veita honum prókúruumboð. Stjórn getur einnig gert samning við eitthvert aðildarfélaga eða þriðja aðila um að annast daglegan rekstur og fjármál félagsins.
15. grein
Rísi ágreiningur milli félagsins og einhvers félagsaðila, skal gera út um hann í gerðardómi. Hvor aðili tilnefnir sinn mann í gerðardóminn. Oddamaður skal tilnefndur af dómsstjóra héraðsdóms Reykjavíkur og skal hann vera formaður gerðardómsins. Úrskurður gerðardómsins er fullnaðarúrskurður.
16. grein
Samþykki aðildarfélaga sem ráða yfir a.m.k. 95% atkvæðamagns í félaginu þarf til að slíta félaginu. Verði ákveðið að slíta félaginu skal höfuðstól þess skipt milli aðildarfélaga í samræmi við þá reglu sem fram kemur í 3. gr. samþykkta þessara.
17. grein
Samþykktum þessum verður ekki breytt nema á lögmætum aðalfundi með minnst 95% atkvæðamagns á fundinum. Tillögur um breytingar á samþykktum skulu tilkynntar í fundarboði.
Samþykkt á aðalfundi SAM
30. september 2021 með atkvæðum allra aðildarfélaga.